Við hjá Reykjavík Design leggjum mikið upp úr því að bjóða upp á gott úrval af Íslenskri hönnun í verslun okkar og viljum koma henni á framfæri. Íslenska þjóðin hefur að geyma gríðarlegt magn hæfileikaríkra listamanna og við erum þekkt fyrir að vera almennt mjög skapandi þjóð. Innblástur sköpunarkrafts okkar kemur líklega frá náttúruperlunum, hreina loftinu og vatninu okkar. Það gæti líka spilað inn í að við erum lítil þjóð og erum dugleg að veita hvor öðru innblástur og stuðning. Förum yfir þau íslensku vörumerki sem við bjóðum upp á.
Alrún
Alrún er lítið sjálfstætt vörumerki starfrækt í Reykjavík. Alrún er í eigu hjóna sem vinna vel saman að öllum þáttum fyrirtækisins og deila hugmyndum sínum af mikilli ástríðu. Grundvöllur orðspors þeirra fyrir djarfri norrænni hönnun byggist á úrvali þeirra af upprunalegum bandrúna skartgripum.
Bandrúna táknin þeirra viðhalda Norrænni bandrúna-gerð sem er meira en þúsund ára gömul hefð. Bandrúnir voru notaðar til að fremja galdra, hylja leyndarmál og til að skapa öflugar persónulegar galdraþulur. Bandrúnir voru einnig algengar í öðrum þáttum hversdagsleikans og voru sniðug leið til að afhenda og senda skilaboð. Norðurlandabúar til forna trúðu því að bandrúnir gætu magnað þýðingu persónulegra skilaboða og orsakað mátt þeirra í lífi þeirra. Hönnuðir Alrúnar leitast stöðugt við að finna hinni djúpu merkingu rúnanna nýjan farveg í verkum sínum og leggja áherslu á að hönnun þeirra hafi persónulega merkingu fyrir viðskiptavini. Hönnunin er afar tjáningarík og markmið Alrúnar er að vörurnar hafi sérstakan stað í hjarta og á heimilum viðskiptavina. Við hjá Reykjavík Design bjóðum upp á úrval fallegra skartgripa og ullarteppa frá Alrúnu.

ANNA THORUNN
Anna Þórunn Hauksdóttir útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2007 sem vöruhönnuður. Stuttu eftir útskrift stofnaði hún vörumerkið og fyrirtækið ANNA THORUNN með einfaldri en skarpri sýn um að skapa persónulegar vörulínur innblásnar og dregnar frá lífsreynslum og minningum frá uppvaxtarárum hennar, þar sem ósnortin náttúrufegurð Íslands umkringdi hana. Anna bjó einnig áralangt á Ítalíu þar sem hún sótti nám við skartgripahönnun og gullsmíði.
Æskudraumur Önnu var að verða kúreki, orrustuflugmaður eða ballerína. Þeir draumar rættust ekki en í dag líður henni eins og hún sé að lifa drauminn sinn alla daga. Hlutir í öllum stærðum og formum fanga ímyndunarafl Önnu og allir skrítnir og fáránlegir hlutir eru stöðugur innblástur fyrir hana. Reynslan af því að sjá grófa skissu á blaði verða að fullkominni hönnunarvöru er eins og töfrar fyrir Önnu, í hvert einasta sinn. Alveg frá því hún vaknar og þangað til hún fer að sofa er hugur hennar að verki að umbreyta öllu sem hún sér og snertir. Anna Þórunn býr og starfar í Reykjavík. Þú færð vinsæla Bliss glervasann frá ANNA THORUNN hjá okkur. Form og hönnun vasans er innblásin af spegli sem Anna átti á áttunda áratugnum, en vasinn er þó nútímalegur og veitir öllum rýmum heimilisins sælu eða “bliss”.

Bybibi
Sigríður Hjaltdal Pálsdóttir hóf vegferð sína í keramik deild Listaháskóla Íslands árið 1996. Árið 1998 hóf hún svo nám við Escola Massana, Centre d’art i disseny í Barcelona og útskrifaðist þaðan árið 2002 með diplómu í iðnhönnun. Í framhaldsnámi hennar í Davinci escola d’art árin 2003-2005 einblíndi hún á mótun og keramik tækni. Sem hönnuður þá helgar Bibi tíma sínum í að kanna nánar hennar svið og læra nýja hluti. Hún hefur tekið námskeið í vöruþróun, framleiðslu og markaðssetningu. Árið 2009 fór hún til Kampala, Uganda, í þriggja mánaða keramik vinnustofu sem víkkaði sýn hennar og nálgun á marga vegu. Barcelona varð heimili Sigríðar og keramik hönnun hennar megin svið. Í menningarlega andrúmslofti Barcelona rak Bibi hennar eigið hönnunar og keramik stúdíó þar sem bybibi leirtauið hennar spratt upp.
Þar sem heimurinn er sífellt að fyllast af nýjum vörum er það megin áhersla Sigríðar að allt sem hún hannar og skapar gegni margvíslegum tilgangi. Vörulínan hennar af borðbúnaði er í rauninni hannaður sem móteitur gegn einnota menningu okkar tíma. Skapandi verk Bibi stefna að því að samþætta ánægjuna af notkun einfalda fallegra hluta í hversdagslega lífinu með gagnlegum tilgangi hlutarins. Hjá okkur færðu krúsir, bolla og könnur frá Bybibi. Krúsirnar nýtast t.d einnig sem litlir blómapottar eða hvað sem þér dettur í hug.

FORMER
Ellert Hreinsson og Rebekka Pétursdóttir standa á bakvið FORMER. Þau eru bæði lærðir arkitektar frá listaháskólanum SCAD í Bandaríkjunum og útskrifuðust fyrir 10 árum síðan. Ellert tók nokkra áfanga með námi í vöruhönnun og hefur unnið við það ásamt hönnun húsa. Ellert hefur hannað fjölmörg fjölbýlishús ásamt einbýlis- og sumarhúsum. Rebekka vann í nokkur ár í gróðrarstöð og svo með námi á landslagsarkitektastofu. Eftir það var hugurinn við arkitektúrinn og hefur hún unnið að hönnun bygginga þar á meðal skóla, íþróttamannvirkja,sundlauga, einbýlis og sumarhúsa ásamt verslunum og fjölmörgum heimilum síðastliðin 10 ár.
Rebekka og Ellert komust að því snemma í háskólanáminu að þau vinna virkilega vel saman og vega hvort annað vel upp með mismunandi styrkleikum. Síðan í náminu hafði það alltaf verið ákveðinn draumur þeirra að stofna fyrirtæki og vinna saman. Þau tóku af skarið í byrjun árs 2020 með stofnun Former sem byrjaði einungis með fókus á vöruhönnun með fyrstu vörulínunni þeirra en nú í upphafi árs 2022 breyttist og stækkaði fyrirtækið í arkitekta og hönnunarstúdío þar sem þau sameina krafta þeirra sem arkitektar með mismunandi reynslu og þekkingu.
Ferðalagið hófst þegar þau voru að leita af bekk fyrir gömlu íbúðina þeirra en fundu ekki þann eina rétta. Þau voru að leita af nothæfri og fallegri mublu í forstofuna þar sem hún var stór partur af alrýminu. Fyrr en varir voru þau komin með alla vörulínuna með því markmiði að skapa einfaldar, elegant vörur með fjölbreytt notagildi. Einn lykilþáttur í vörunum var að þær hafi sögulegt gildi. Bekkurinn er innblásinn af gamla símabekknum og hillurnar úr eldhúsi frá sjöunda áratugnum þar sem það voru oft fljótandi efri skápar yfir eldhúsbekkjum.
Fyrsta vörulínan þeirra fékk nafnið VERA þar sem vörurnar í vörulínunni snúast um notandann, að notandinn geti gert vörunni að sinni, að vera þú sjálfur. Markmið Former er að bjóða upp á vörur þar sem fjölbreytt notagildi, einfaldleiki og gæði fara saman. Hjá okkur færðu stílhreina og fallega VERA rekkann frá FORMER en hann er einföld lausn þar sem opnir endar nýtast meðal annars til að geyma tímarit, bolla, glös eða önnur búsáhöld.

heklaíslandi
Hekla Björk Guðmundsdóttir hönnuður og listakona er alin upp á Laugalandi Holtum í Rangárvallasýslu. Hekla hannar og framleiðir undir nafninu heklaíslandi sem á upphaf sitt að rekja til ársins 1996 þegar Hekla hannaði og framleiddi gjafakort út frá málverkum sínum. Hekla hefur alla tíð unnið við list og sækir allan sinn innblástur í íslenska náttúru og hefðir. Lóan, kindin og hesturinn hafa einnig spilað stórt hlutverk í sköpun Heklu ásamt villtri flóru Íslands.
Málverkið er sterkt í mest allri hönnun Heklu, listakonan og hönnuðurinn vinna vel saman og útkoman er einstök. Verk Heklu eru fjölbreytt og notar hún margskonar efnivið s.s. ál, hör, tré og pappír. Markmið heklaíslandi er að halda áfram að hanna og framleiða gæða vörur með séríslenskum og norrænum áhrifum. Við bjóðum upp á fjölbreytt vöruúrval frá heklaíslandi, þar á meðal viðarskúlptúra, viskustykki, kertastjaka, svuntur, ofnhanska og púða.

HER Design
Vörumerkið HER design var sett á markað árið 2016. Fyrirtækið hannar og selur skuggastjaka, Íslandsklukkur og margvísleg önnur verk úr plexigleri eða málmi. Þau notast við Laser grafvél til að framleiða vörurnar og er það allt gert hér á Íslandi. Hugmyndin að framkalla ljósmynd á plexígler og skera hana svo út kom upp þegar sonur eigandanna var að æfa sig á vélinni sumarið 2016 og kom það svona rosalega vel út. Eftir það spruttu fram allskonar hugmyndir um hvað er hægt að gera með svona vél og þeim fannst þetta allt mjög spennandi. Árið 2017 var komin mikil reynsla á umfangi þessarar framleiðslu og afgreiðslu pantana og tókst þeim þá að taka næsta skref sem var að koma þessum vörum í verslanir. Skuggastjakarnir eru sérstaklega vinsælir, verk sem eru samspil ljóss og skugga, unnið úr plexigleri. Með aðstoð sprittkertis varpar loginn útskornum myndum sínum á nærumhverfi sitt. Skuggastjakana og aðrar vörur frá HER Design færðu hjá okkur.

IHANNA HOME
IHANNA HOME er fyrirtæki og vörumerki stofnað árið 2008 af Ingibjörgu Hönnu Bjarnadóttur. Fyrirtækið hannar og framleiðir hágæða innanhúss vörur með grafísku ívafi með innblæstri frá norrænu rótum. Stefna þeirra er að hanna vörur þar sem notagildi, gæði, einfaldleiki og viðvarandi fagurfræði koma saman. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Reykjavík. Hjá okkur færðu ýmsar vörur frá IHANNA HOME. Vörulínan Melar er innblásin af hrjóstrugu landslagi Íslands, melum og mosa. Þar er horft á fegurðina í munstrunum sem myndast með steinum og í sandinum, ásamt fallegum litum í smágerðum og harðgerðum plöntum sem þrífast með mosanum. Svuntan úr endingargóðri þykkri bómull og leðri, viskastykkið úr hör og bómullarblöndu en ofnhanskinn er einangraður með polywadding, eins með leðurlykkju til að hengja upp. Einnig færðu dásamleg ilmkerti úr sojavaxi frá IHANNA HOME hjá okkur, en kertin koma í fallegum keramikbollum sem hægt er að nota áfram kaffibolla, blómapott eða undir hvað sem er.

Lumo Casa
Upphaf sögu Lumo Casa hófst í lítilli kjallaraíbúð á Íslandi. Þó svo að tími og fjármagn hafi verið af skornum skammti fæddist fyrirtækið árið 2014. Ástríða þeirra fyrir einstakri hönnun og notkun íslenskra hráefna gaf vörum þeirra og sýn, líf. Innblástur hönnunarinnar er að hluta sóttur í nafn fyrirtækisins sem þýðir ljós (lumo) og hús (casa), þ.e. vörur sem “lýsa” upp húsið.
Samspil fallegrar hönnunar, vörugæða og notagildis er sterkur drifkraftur og auðvitað á íslensk náttúra einnig sterk ítök. Grunngildi hönnunarinnar eru endurspeglun heiðarleika og trúverðugleika í einfaldleika lífsins. Lumo Casa framleiða meðal annars viskísteina, glasamottur og vín lofttæmi. Viskísteinarnir og glasamotturnar eru hönnun og framleiðsla sem sótt er beint í íslenska náttúru. Viskísteinana má að sjálfsögðu nota til að kæla hvaða drykki sem er og henta vel fyrir þá sem ekki vilja vatnsþynna drykkinn sinn með ísmolum. Vín lofttæmirinn er tilvalinn inn á heimili vínunnandans, en hann pumpar lofti úr opinni vínflösku sem hægir á oxunarferli vínsins, varðveitir bragðgæði þess og eykur þannig geymslubirgði þess í allt að tvær vikur. Algjör snilld! Hér sérðu vörurnar frá Lumo Casa.
